Hávaðarok

Rigningin fossar niður, vindurinn stormar áfram með hávaða og látum. Ljósastaurarnir reyna sitt besta til að halda sér þráðbeinir, en vagga fram og tilbaka. Einhversstaðar þarna úti eru björgurnarsveitarmenn að hjálpa fólki og hemja lausamuni sem að þjóta áfram út í veður og vind.

Ósköp er gott að sitja hérna inni, þó aðeins fáum sentímetrum frá brjálæðinu úti. Glær rúðan skilur á milli, vesalingurinn titrar og skelfur eins og lítil mús í baráttu við kött. Kertaljósin í glugganum eru ósköp hlýleg og róandi. Mikið er gott að vera kominn inn í hlýjuna.

Friðarspillir

Úff. Rigningin er mætt á svæðið. Gat nú verið. Friðarspillir!Crying

Veðurspáin segir að hún muni vera hér að minnsta kosti fram á laugardag, ef ekki lengur. Las reyndar viðtal við veðurfræðing nýlega, en þar var verið að fjalla um jólaveðrið. Hann sagði ekki væri hægt að spá nákvæmlega um hvort að jólin yrðu hvít eða rauð, en vetrarveður væri í kortunum vikuna fyrir jóla.


Veikindi hjá Mjása litla

Í gær fór ég í hálfgerða óvissuferð. Við Hilmar löbbuðum í snjónum upp að Grímsbæ, þar sem við hoppuðum upp í næsta strætó sem myndi bera okkur niður í 101 Reykjavík. Við röltum niður Laugarveginn, fengum okkur pítsusneið og pepsi og brunuðum svo upp í Kringlu. Þaðan fórum við í Safamýrina til Önnu Elísu og gáfum henni kók í gleri - ómissandi í próflestrinum.Wink

Litli Mjási er veikur. Það var vondur bíll sem að missti stóra kranafjarstýringu á götuna fyrir framan Mjása litla. Eitthvað svart plaststykki hrökk undan greyinu og er drullusokkurinn þarna undir víst ónýtur. Seinna um kvöldið fundum við út að annar demparinn að aftan er ónýtur. Vesalings litli Mjási!



Snjór!

Yndislegt hvað hjartað kitlar alltaf af gleði þegar snjókornin falla niður af himnum. Finnst að það ætti að snjóa oftar. Snjórinn og jólaljósin hjálpast að við að minnka þetta myrkur sem grúfir yfir Íslandinu okkar.
Ég tel mig nú ekki svo gamla, en mér fannst ég samt sem áður yngjast um nokkur ár þegar ég valhoppaði í snjónum í dag. Hilmar hikaði smá, tók síðan í hendina mína og valhoppaði með mér. Wink

Jólatónlistin fangaði mig í Smáralind. Ég dansaði og skoppaði eftir ganginum, án þess að veita neinu öðru athygli. Alvarlegt augnaráð eldri-litla bróður míns dró mig skyndilega niður á jörðina, nú skyldi fíflaganginum linna.Blush


Snátur litli

Ég verð víst að halda mig hér, svo Arnór greyið þurfi ekki að hata mig. Nú, eða sem verra væri, kippa mér út af bloggaralistanum á síðunni sinni. Við sjáum til Arnór, hvort að mér finnist vinalegt hér. Wink

Við Hilmar erum búin að eignast nýjan vin, hann Snát litla. Hann er lítið tígrisdýr úr frumskógum Afríku. Hann ferðaðist alla leið til Íslands, ásamt vinum sínum. Hann er með litla segla í öllum löppunum sínum, svo að hann kemst furðu langt í þessum stóra heimi án hjálpar. Litla krílið hoppar um á rafmagnstöflunni hans Hilmars, vefur sig utan um snúrurnar og situr á tölvuskjánum tímunum saman. Við vonum samt að hann verði ekki hræddur við Eyrnaslapa, dapra vininn okkar. Þeir eiga örugglega einhverntíma eftir að verða góðir vinir.

Ég var að keyra um daginn. Það er morgun, klukkan var rúmlega átta og göturnar fullar af bílum. Ég fór að velta fyrir mér hversu svekkjandi það væri að vera gatnamálastjóri. Kemur allt of seint í vinnuna,  vegna þess að hann var pikkfastur í umferð sem varla silaðist áfram. "Afsakið að ég kem of seint, þessi gatnamót þarna eru bara algjör steypa!!!"......tja?Woundering

Annars er ég bara nokkuð kát. Fór með Hilmari upp í Grænuhlíð í gærkvöldi. Ótrúlega gott að komast aðeins í kyrrðina. Ég er smá saman að takast á við myrkfælnina. Tökum sem dæmi sumarbústaðinn. Mér líður alltaf eins og einhver sé að horfa inn um gluggann eða labba á pallinum. Alveg magnað hvað þetta ímyndunarafl getur spilað með mann. Hugurinn fer á flug og hendir steini í magann.

 


Jólin?

Eftir einhverja tugi ára, verðum við íslendingar eins og bandaríkjamenn. Verðum búin að þrífa og skreyta húsið hátt og lágt upp úr miðjum nóvember, komin með ógeð af jólalögunum í byrjun desember og jólagjafirnar verða keyptar í júní. Við munum mæta óþolinmóð í réttirnar og tvístíga á meðan sauðfénu er slátrað. Jólaskrautið verður komið aftur ofan í kassa áður en við mætum í jólaboðið á Jóladag. Á öðrum degi jólanna verður síðan eins og aldrei hafi verið jól á þessum kalda klaka.






Og þar fór það....

Ég er að hugsa um að segja skilið við þessa bloggsíðu, allavega í bili. Mér finnst mjög gaman að skrifa og geri það yfirleitt bara fyrir sjálfa mig. Mér finnst samt frekar leiðinlegt að vita af fólki læðast hérna um en marka svo fá spor á síðuna. Woundering

Kannski að ég komin hingað aftur, einhverntíma.
Hugsa að ég fari að senda nokkrum útvöldum tölvupóst með vangaveltum hversdagssins.
Bíðið bara!Tounge


Lára Halla Sigurðardóttir

Neee...klárlega ekki!

Tveir hlutir sem ég mæli klárlega ekki með:

1. Velja einhvern af þeim áföngum í Flensborg sem kenndir eru af ágætum sálfræðikennara þar á bæ. Kerlingarskruddan er ávallt á svipinn eins og hún hafi tekið gúlsopa af sítrónusafa með stóru stykki af hákarli. Hefur skap á við mannvígan tudda sem, og tekur það út á blásaklausum nemendum sínum sem titra eins og strá í rokinu á Íslandi. Breytingarskeiðið er við völd hjá kennaranum og eru gluggar því vel opnir. Dæmi eru um að nemendur sitji hvern tímann á fætur öðrum, kappdúðaðir í úlpur og ullarsokka.

2. Umgangast neikvætt fólk og nöldurseggi. Sjitt. Gleðin sogast úr hjartanu, beint upp í himinhvolfið þar sem hún hringsólar í einhverju svartholinu um aldur og eilífð. Nöldrið verður að suði sem rennur inn um annað og út um hitt. Maður reynir í örvæntingu að söngla hamingjulag úr Sound of music, flýr á einhvern hamingjustað og treður eyrnatöppum laumulega í eyrun.


Morð?

Ég er með stórt samviskubit. "Þú skalt ekki morð fremja". Sjitt maður. Ég hef það mjöög á tilfinningunni að ég sé að senda kennarinn minn í gröfina. Sífellt blaður mitt og Perlu hefur smá saman fengið hárið hennar til að rísa til muna og manndrápssvipurinn sem ég fékk í dag boðar ekki gott. Ef ég hefði ekki á sama augnabliki hvíslað einhverju að Perlu og við sprungið úr hlátri væri ég líklega í betri málum. Við reynum að réttlæta óstjórnlegt málæði okkar með því að einhverjir þurfi að tala í þessum tímum, en bekkurinn er dauður. Algjörlega. Við erum klárlega virkastar í að nota orð í þessum næringarfræðitímum, en kennarinn virðist gleyma málefnalegum umræðum okkar um C-vítamín þegar við sitjum í hláturskasti yfir spurningum um örverur. Úff.

Í kvöld sat ég aftur á móti í hláturkasti á Morfískeppni sem háð var milli Flensborgar og FG. Flensborg hafði betur og mega FG' ingar bara eiga skítinn sem að þeir skildu eftir í hrúgu fyrir utan skólann okkar í morgun. Lúðar.

Hlaupagarpurinn mikli

Ég komst að því um daginn að ég GET skokkað/hlaupið fimm kílómetra í roki og rigningu. ÁN þess að fá harðsperrur, og ÁN þess að langa að setjast niður, mótmæla með krosslagða handleggi og manndrápssvip. Ég gat haldið uppi ágætum samræðum við hlaupafélaga minn án þess að deyja úr mæði og mér tókst einhvernveginn að sleppa því að detta um reimarnar mínar. Jújú, ég rataði ofan í nokkra polla og Hilmar var mögulega kannski svona tíu mínútum á undan mér, en hvað með það? Wink Ég verð að segja að þetta afrekæ hvatti mig til dáða og hver veit nema ég geri þetta að reglulegum viðburði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sólargeislinn

Höfundur

Lára Halla Sigurðardóttir
Lára Halla Sigurðardóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • lára á ísilögðu eyrarvatni
  • gilmore%20girls
  • Nýársnámskeið 2007

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband