Sólargeislar á múrsteinahúsi...

Sólin skín inn um danska gluggann minn. Áðan kraup ég við gluggann og brosti til hennar þar sem hún laumaði geislum sínum yfir múrsteinahúsið á móti. Hún hitaði kinnarnar mínar og hjartað hoppaði af gleði. Skýin hafa haft yfirhöndina í dag og hellt regni yfir Kaupmannahöfn. Við flúðum á milli búða á Strikinu og fundum nokkra fjársjóði í búðunum. Eftir nokkra tíma stigu fimm íslendingar upp í strætisvagn, uppgefnir í fótunum og örlítið blautir eftir rigninguna en ánægðir með árangurinn.

Varð hugsað til Perlunnar minnar áðan. Tannlæknirinn hennar tók endajaxlana hennar í vikunni, ljóti kagl! Yndið mitt, ef að þú lest þetta þá er ég búin að hugsa sérlega vel til þín og tannanna þinna í vikunni og vona ég að þér líði sem best. Mér þykir alveg ótrúlega vænt um þig sólargeislinn minn! Knús! :*


Hitt og þetta..

Myrkið hefur tekið völdin hér í Kaupmannahöfn. Ljóshærð stúlka liggur ósköp krúttleg í rúminu sínu. Henni hefur nánast tekist að snúa sér öfugt, og er þar að auki half á rúminu mínu. Yndislegt stúlka, ljúf og góð... Öllum systkinum tekst samt einhvernveginn að fara smá í tauganar á hverju öðru. Er það ekki rétt? Asnaðist til að kenna stóra-litla bróður rommí áðan. Tapaði að sjálfsögðu.

Sólin hefur verið dugleg að leika sér við okkur hér í útlandinu. Morgnarnir fara í að liggja í sólbaði úti á svölum, og svo förum við út að bralla eitthvað um hádegisbilið. Erum búin að skoða Þjóðminjasafn Danmerkur, Frúarkirkjuna, Hús Jóns Sigurðarsonar, skreppa í Tívolí, rölta um á Strikinu og fleira. Ég hitti svo Kristínu Rut og fjölskyldu í gær. Labbaði með henni um Fisketorvet og svo með þeim um Íslandsbryggjuna. Þar var æðisleg stemmning. Fólk sat á teppum, sumir með kerti, búnir að grilla eða borða eitthvað. Margir höfðu greinilega líka verið að synda í sjónum.Síðan gengum við framhjá stórum hópi af fólki sem að sat á jörðinni í hóp. Þarna átti að fara að sýna bíómynd á stóru tjaldi.

Lára og Jóhanna

Ég að knúsa stóra bangsa

Þessa dagana eru hnífamál mikið rædd hér í Danmörku. Síauknar hnífaárásir og aukin hnífaeign dana hræðir fólk. Fjórar hnífaárasir voru um helgina. Þetta var eiginlega allt fólk á aldrinum 19-21 árs en svo var einn 15 ára sem réðst á annan eldri. Í blöðum segist ungt fólk ekki þora að ganga um bæinn að kvöld og næturlagi án þess að hafa hníf á sér. Úff!

Ég hlakka svo til að byrja í skólanum. Jú, það þýðir reyndar að sumarið og fríið sé á enda, en mér finnst skólarútínan líka bara fín. Hitta alla aftur, KSS byrjar aftur og já...
Heima er best.


Kaupmannahöfn

Hér sit ég í danskri íbúð í Kaupmannahöfn. Úti er farið að skyggja smá, en þó er hægt að sitja úti í peysunni. Ég sit með tölvuna í fanginu. Svaladyrnar eru opnar upp á gátt þar sem pabbi minn situr með tölvuna sína, en ég horfi út yfir stóran garðinn sem teygir úr sér milli blokkanna. Lítil dúfa situr upp á strompi beint á móti og spjallar við nágranna sinn fjórum blokkum frá í hringnum en rigningin bíður hikandi handan við hornið til að skella sér okkur.

Lagði höfuðið á koddann í rúman klukkutíma í nótt. Vorum komin ótrúlega tímalega á flugvöllinn í morgun, og allt gekk eins og smurt. Hjalti litli bróðir minn er voðalega hrifinn af dreddum og talaði á tímabili mikið um dreddahárið þeirra Arons og Elíasar. Þegar við færðumst framar í röðina fór hann eitthvað að benda, pota í mig og sagðist alveg viss um að þarna væri strákur alveg eins og Elías. Ég sagði bara jaaaá.. annarshugar og kinkaði smá kolli. En viti menn! Þegar við vorum búin að tékka töskurnar inn voru Hildur og Elías bara mætt þarna allt í einu. Þá var Elías að fara til Noregs í viku á sömu mínútu og við lögðum í hann til Danmerkur.

Annars höfum við bara haft það notalegt og slappað af í dag. Ég fór í tvo könnunarleiðangra um hverfið í hitanum og líkar bara vel. Átta mig samt ekki alveg á því hvar við erum í Kaupmannahöfn...

Ég þurfti að bjarga mér á flugvellinum í dag. Talaði við einhvern gaur í neonlituðuvesti sem var eitthvað að vinna þarna. Var að spyrja hann um óskilamuni og hann varð ýkt pirraður. Þá ákvað ég að ég væri örugglega ekkert búin að týna neinu og sagði bara takk og bless!


Sumarið á enda..

Þá er sumarið bara búið! Eða svona næstum.., vinnusumarið er á enda hjá mér. Þessi vika á leikjanámskeiðinu á Holtaveginum var algjört æði með Perlu, Kristínu Rut og Aroni, ásamt Svandísi. *
Snemma í fyrramálið flýg ég svo til Danmerkur með fjölskyldunni.

IMG_9324

IMG_9402

IMG_9411

IMG_9451

IMG_9490


Hvað er betra?

Vatnaskógur heilsaði með hávaðaroki á föstudaginn. Fjörtíu og fimm mínútur fóru í að koma upp tjaldinu sem að hló óstýrlátt í laumi á meðan vindurinn reyndi hvað eftir annað að fella okkur um koll. Að lokum tókst ætlunarverkið, tjaldið sat eftir með skeifu og hallaði undir flatt þegar vindurinn stormaði áfram af Eyrarvatni.

Margir KSS´ingar lögðu leið síðan í Skóginn þessa helgina. Það er svo ótrúlega gaman að hittast svona mörg eftir sumarið sem að skilur fólk í sundur. Bros, hlátur, faðmlög og gleði einkenndu lífið hjá okkur um helgina, sem og rokið sem þeytti okkur til og frá. Hvar er Mjallhvít spilaði á laugardagskvöldið. Ótrúlega skemmtileg hljómsveit með Þorleif KSS´ing í fararbroddi, og dönsuðum við fram á rauða nótt.

Mér finnst alveg yndislegt að vera á Sæludögum. Eyddi helginni með vinum mínum, fjölskyldu og einnig öðrum kunningjum...öllum á sama stað. Hressar kvöldvökur þar sem við krakkarnir fylltum nánast tvær sætaraðir, frábærir tónleikar með Pétri Ben, lúguspjall við Hlíðarforingja. Helgin endaði svo á rólegri lofgjörðarstund með altarisgöngu og varðeldi. Stjörnuljósin gneistuðu í myrkrinu, kertaljós flutu út á stillt vatnið. Hvað er betra? .....


Bílskúrsrólegheit

Pétur Ben ómar í RCF´num við hlið mér. Rigningin hellist niður fyrir utan bílskúrinn þar sem ég sit með Hnoðra í fanginu og leyfi fingrunum að leika sér við lyklaborðið. Á móti mér situr drengur. Hann neglir, sagar, límir, skrúfar. Hugurinn er allur við verkið, svo mjög að heyrnin virðist horfin.

Bloggheimurinn leggst í dvala þegar sólin hækkar á himni. Fólk þeysist út um allan heim og sveitir í leit að ævintýrum. Tölvuhangs virðist út úr kortinu. Sumarástin svífur um loftið með sólargeislunum, en rigningin lætur varla sjá sig á himninum.

Ég átti góða sólardaga í Hlíðinni í sumar. Einn daginn fékk ég hugdettu. Hvað ef að jörðin okkar hefur skyndilega orðið að sögusviði Bláa hnattarins? Sólin okkar negld upp á himininn yfir Íslandi, regnblaut skýin halda sig víðsfjarri yfir Evrópu og lítil íslendingabörn leika sér allan liðlangan daginn í hitanum af sólinni sem virtist ekki ætla að yfirgefa okkur.

Tveir litlir kettlingar hjúfruðu sig í fanginu mínu um helgina. Ótrúlega ljúfir möluðu þeir af ánægju og bræddu hjartað mitt á mettíma. Sá þriðji trítlaði um gólfið við fætur mína en mamman lét fara vel um sig í sófanum..

Ég kleif Esjuna í dag. Í rúmlega þrjúhundruð metra hæð var sem himininn hefði skynjað ótta mitt við næstu skref og hellti milljón regndropum á fjallið. Ánægð með árangurinn fetuðum við okkur, skref fyrir skref niður fjallið – blaut frá toppi til táar. Myndavélin drukknaði í vasa mínum og hvílir sig núna uppi á hillu í von um skjótan bata.


Og við klifum Esjuna..

Lára og Hilmar á Esjunni 

Lára á Esjunni 

Hilmar á Esjunni 



Og sumarið líður...

Þá er sumarið mitt í Hlíðinni búið. Kom heim á mánudagskvöld með smá söknuð í hjarta, en líka með fullt af skemmtilegum minningum frá yndislegu sumri. Ég skemmti mér svo sannarlega í Vindáshlíð. Frábærar samstarfsstelpur gerðu lífið svo skemmtilegt og litlu stelpunar voru yndislegar, hver á sitt hátt. 

6.flokkur 2007

7.flokkur 2007

hermannaleikur

idolkeppni 6.flokkur

púsl 7.flokkur

leikrit á veislukvöldi 7.fl

og svo teygjaaaa!

brennó...

Brostu! Grin


Ævintýri

Komin aftur í Hlíðina. Annar flokkurinn af tveimur búinn og mér líður eins og ég hafi komið hingað í gær. Samt er heill ævintýraflokkur runninn sitt skeið með sínum uppákomum. Þessi vika var ekki bara ævintýraleg fyrir stúlkurnar í flokknum, ég skemmti mér líka konunglega. Eitt kvöldið skelltum við okkur nokkrar upp í uppáhalds skóginn minn, rugluðum-hlógum og hoppuðum á trampólíni brosandi út að eyrum. Þarna tróð táfýla og svitalykt af tæpum hundruði drengja sér upp í nefið og söng-öskur þeirra á kvöldvökunni sendi puttana ósjálfrátt inn í eyrun.... Það var samt líka æði að hitta alla foringjana og spjalla smá.

Daginn eftir hélt ég aftur upp í skóg í fríinu mínu og skellti mér á seglbát með Hilmari svaðilfara. Benjamín bátaforingi sagðist sko ekki ætla að bjarga okkur ef að við lentum í Eyrarvatni, en minnti okkur vinsamlega á björgunarvestin. Við tróðum okkur ofan í eins manns bátinn og héldum út á öldurnar. Hilmar kunni á þetta allt saman, en ég vissi nú ekkert hvað ég var að fara út í. Öldurnar voru allsvakalegar þennan dag og skoppuðu okkur til og frá. Ég ríghélt með báðum í seglstöngina og rennblotnaði. Þarna vorum við, á eins manns seglbáti úti á Eyrarvatni í brjáluðum öldum og tárin fóru að blika í augunum... En allt er gott sem endar vel. Litla hrædda sálin gladdist að lokum og vinkaði Arnóri stolt sem að stóð keikur á bryggjunni.

Þegar við höfðum vinkað áttatíu ævintýrastelpum bless í gær héldum við fimm í Laxá. Þar tókum við okkur stöðu á c.a. fimm metra háum kletti, horfðum ofan í vatnið sem að virtist tæplega þriggja metra djúpt og fengum fiðring í hnén. Hjartað skalf örlítið en allar enduðum við í ískaldri ánni. Syntum um í kuldanum við hákarlasöng frá Kristjönu og forðuðum okkur frá skuggalegum skugga. Þetta var æði!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sólargeislinn

Höfundur

Lára Halla Sigurðardóttir
Lára Halla Sigurðardóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • lára á ísilögðu eyrarvatni
  • gilmore%20girls
  • Nýársnámskeið 2007

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband