3.6.2007 | 00:36
Hermenn í skóginum
Tuttugu fjörugir drengir ruku á ljóshraða í appelsínugul björgunarvesti, hlupu eftir bryggjunni og námu staðar rétt við bryggjuendann. Brúnhærð stúlka, vel-klædd frá toppi til táar, blotnaði í fæturnar þegar bryggjan tók að síga undan þunga drengjanna. Öldurnar voru eins og litlir sökkpallar þegar rauði gúmmíbáturinn brunaði eftir Eyrarvatni. Ljóshærður foringi stýrði honum af öryggi, en blotnaði frá toppi til táar á augabragði á meðan brúnhærða stúlkan skellihló með litlum, krúttlegum Hjallastúlkum.
Gegnum skóginn, eftir sandfjöru, gegnum ósinn blaut upp að mitti. Hljóp með hjartað í köldum og blautum buxunum framhjá kríuvarpi, eftir veginum og enn á ný í gegnum ískalt vatnið.... Allt á innan við hálftíma. Hlaupastingur breyttist á einni nóttu í harðsperrur og sársaukasvipur í sólskinsbros fullt af stolti!
Hræddur starrafugl reyndi aftur og aftur að komast í gegnum gluggann í íþróttahúsinu þrátt fyrir vinsamlega beiðni tveggja drengjaforingja um að nota dyrnar í staðinn. Veiddi hann með gulum efnisbút og sleppti honum út í frelsið þar sem hann valhoppaði í sólinni.
Laugardagsmorgun. Skógurinn fylltist af tæplega fjörtíu hermönnum með M-16 laser byssur. Barist var innan um trén, uppi á Birkiskála og gamla Laufið fékk hlutverk á ný þegar nokkrir hermenn lögðust þar til varnar í skotgrafir. Mikið rosalega var þetta gaman.
Vindáshlíð eftir rúma fjóra daga. Ætla svo sannarlega að njóta lífssins í bænum þangað til að ég fer í yndislegu vinnuna mína. Kom við þar á leiðinni úr Skóginum í kvöld, aaah.....
Bloggar | Breytt 4.6.2007 kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.5.2007 | 01:10
Faðmlag með hugskeyti
Fyrr um daginn kvaddi ég frænku mína sem að lét lífið langt fyrir aldur fram eftir stutta baráttu við krabbamein. Þegar ég sat þarna í kirkjunni og athöfnin leið áfram, kom staðreyndin eins og spark í magann á mér, lífið er virkilega stutt. Það rennur framhjá á augabragði. Ég sendi í huganum faðmlag til allra þeirra sem að mér þykir vænt um, kannski að það hafi skilað sér í brosi eða hlýju í hjarta?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2007 | 03:00
Arnór
Strákurinn sem að strax frá unga aldri heillaði kvenþjóðina upp úr skónum með fyrirsetu í prjónablöðum. Maður heyrði tikkið í prjónunum langar leiðir þegar konur á öllum aldri kepptust við að framleiða peysur á drengi, sem að komust samt sem áður aldrei í hálfkvisti við kvennabósann í firðinum fagra. Rúmum tiu árum síðar stóðu þær aftur á öndinni þegar drengurinn kom fram í söngkeppni framhaldskólanna, svo geislandi af kynþokka að nokkrir unglingsdrengir rifu sig úr að ofan með stjörnur í augunum og öskraði drengur einn nafn hans svo mjög að hann missti nær röddina...
Arnóri man ég fyrst eftir úr Lækjarskóla. Þrátt fyrir að hafa dustað rykið af þessum árum í heilabúinu, rótað og leitað af minningum af honum, voru aðeins tvö heilakorn sem að voru samvinnuþýð. Í minningunni var hann alltaf í fylgd með rauðhærðri stúlku og gekk svo um með svarta skjalatösku í 10.bekk. Ætli þessi ljúfi og saklausi drengur hafi ekki bara fallið í skuggann af ólátabelgjunum sem að einkenndu árganginn hans í grunnskóla. Þegar ég lagði síðan leið mína á minn fyrsta KSS fund var hann sá fyrsti sem að heilsaði mér. Hress og glaður strákur sem að hefur eftir það leikið sér að því að fara yfir strikið hjá manni, láta mann roðna og fara hjá sér.
Í þessi fáu ár sem að ég þekkt Arnór hefur hann svo sannarlega reynst vinur í raun. Það er gaman að spjalla við hann, eyða tíma með honum og hann er alltaf tilbúinn að hlusta þegar manni liggur eitthvað á hjarta. Þá pælir hann í vandamálunum, bendir manni skynsamlega á það sem að mætti fara betur en einnig á það sem að maður er að gera rétt. Ég er þakklát fyrir að hafa kynnst honum og vildi ég óska þess að allir ættu einn Arnór í lífi sínu. Allir ættu að hafa einhvern sem að lætur mann fá verk í magann af hlátri, roða í kinnarnar þegar skemmtilegi-öðruvísi hláturinn hans tekur völdin og einhvern sem að tæklar vandamálin með vinstri þegar þau herja á mann úr öllum áttum
Í dag setur Arnór upp hvítu húfuna, kveður Kvennaskólann í Reykjavík og heldur út í lífið með góðan slatta af einingum í kollinum. Þrátt fyrir góðar einkunnir og kunnáttu í hinum ýmsu greinum held ég að besta veganestið sem að hann hefur með sér út í þennan harða heim sé heiðarleikinn, staðfestan, jákvæðnin, ákveðnin og kærleikinn sem hann hefur að bera.
Hann stefnir Kennaraháskólann og er ég viss um að það mun verða honum gæfuspor í lífinu. Ég hlakka til að fylgjast með þessum kappa og því hvernig hann á eftir að feta sig í gegnum lífið. Þessa dagana valhoppar hann á bleikum skýjum með hjartað fullt af ást og umhyggju til ungrar stúlku í Safamýrinni. Vona ég að hann muni alla tíð ganga í gegnum lífið með hana sér við hlið og hafa Jesú Krist í lífi sínu.
Til hamingju með daginn Arnór, mér þykir vænt um þig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.5.2007 | 20:52
Hilmar, ertu nú alveg að ganga frá Láru?
Eftir tíu kílómetra hjólatúr úr Fossvoginum í rigningu og roki, niður í miðbæ Reykjavíkur með smá djús-stoppi á Pizza Pronto, aftur til baka í Safamýrina og upp tugi þrepa stóð ég gjörsamlega á öndinni. Hilmar, ertu nú alveg að ganga frá Láru?, sagði Anna Elísa brosandi með mömmu sína glottandi fyrir aftan sig. Spurning með að fara að slappa af Hilmar?
Búin að fá einkunnir og er bara nokkuð sátt. Held bara að ég hafi uppskorið nákvæmlega eins og ég sáði, sumt betra en annað. Sérstaklega fannst mér gaman að horfa á 9´una mína í íslenskunni og ekki sakar að fá góða einkunn í leikfimi. En já, nú á ég eftir fimmtán einingar í framhaldsskóla. Það klára ég með léttum leik á næstu önn. Í haust verður hafist handa við að skapa nýtt Okkar á milli, blað KSS´inga og fékk ég það hlutverk að ritstýra blaðinu. Ég hlakka mikið til og trúi því að þetta verði hið fínasta blað. Ritnefndin sem er óðum að myndast stendur saman af frábæru fólki. Þetta verður æði!
Á morgun ætla ég svo að rifja upp hvernig á að bjarga mannslífum og ýmislegt annað nytsamlegt fyrir sumarstarfið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.5.2007 | 20:00
Kemur við sögu á hverjum degi.....
Fylgdist með Eurovision í góðra vina hópi í gærkvöldi ásamt því að hoppa á trampólíni og borða grillaðar pylsur. Fann mér nokkur góð lög í keppninni til að halda með og hló mig máttlausa yfir þeim lélegu. Þegar kom að stigagjöfunni skemmti ég mér konunglega yfir fyndnum nöfnum sem að stiga-kynnarnir frá löndum hétu. "Perla, hver heitir eiginlega BRUSSELS?".
Fylgdist með kosningasjónvarpinu fram eftir nóttu ásamt því að spila tölvuleik. Stjórnin féll og reis upp á ný af og til eftir því sem að leið á nóttina. Um þrjúleytið var gert smá hlé og skotist niður í bæ. Á leiðinni útaf staðnum, með pítsukassann undir hendinni áttuðum við okkur á að það var búið að leggja fyrir okkur. Maður með kaskeyti á hausnum og símann við eyrað bograði yfir skottinu á pínulitlum og mjög svo krúttlegum bíl. Loks settist hann inn í bílinn. Ég fór út úr bílnum okkar, bankaði á rúðuna hjá honum og bauð honum hjálp. Að sjálfsögðu var þetta enginn annar en Ómar Ragnarsson sem afþakkaði pent og sagðist hafa lagað þetta með kexi. Jæja þá, sagði ég frekar hissa og settist aftur inn í bíl. Litli krúttlegi bílinn hrökk í gang, silaðist áfram, hægt en örugglega. Síðan þegar heim var komið var fyrsta viðtalið á skjánum við Ómar þar sem hann var að festa nýtt matarkex í vélina.
"Kexið frá Frón, kemur við sögu á hverjum degi...."
Áðan sat ég og sleikti sólina í heitum potti í Árbæjarsundlauginni. Á móti mér steig myndarlegur karlmaður upp úr pottinum og rölti yfir í annan heitari. Aldrei á ævi minni hef ég séð svona æpandi bleik sundföt....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.5.2007 | 00:47
Sumarfrí
Skvamp! Klórblandað sundlaugarvatnið fyllti munn, augu, nef og gleraugu þegar stæltur strákur stakk sér af fullum krafti beint ofan í djúpu. Félagi minn tók undir hressa kveðju hans en ég hafði tekið niður gleraugun, pírði augun út í móðuna og þekkti ekki kauða. Seinna um kvöldið sá ég hann rölta framhjá heita pottinum og kannaðist þá við hann og veifaði. Fyndið hvað fólk breytist við að klippa síða hárið burt.
Ég elska sumarið á Íslandi. Svo yndislega björt og kyrrlát sumarkvöld. Köll frá krökkum í leik hleypa lífi í tilveruna. Sólin og skýin mynda listaverk á himnum og rómantíkin liggur í loftinu. Þegar ég var yngri var ég úti allan mest allan daginn á sumrin. Fullt af leikjum, uppgötvunum og fimleikum úti í garði. Loksins þegar maður fékkst inn á kvöldin lyktaði maður af grasgrænu og var brúnn upp fyrir haus. Sólin óhreinkar víst líka.
Rigningardögum eyddi maður í að lesa. Þaut í gegnum margar bækur á stuttum tíma. Hvert ævintýrið á fætur öðru. Maður lifði sig algjörlega inn í sögurnar. Eina vikuna, eftir lestur á Önnu í Grænhlíð og Sossu sólskinsbarn, voru fléttur aðalmálið. Ævintýraþráin tók völd eftir samfylgdina við fimmmenningana og Kíkí. Svo var það Harry Potter
.
Sumarfríið gengur í garð eftir einn og hálfan dag. Hjartað mitt fylltist af söknuði þegar ég uppgötvaði að það yrði enginn skóli í þrjá og hálfan mánuð. Ég er að fíla skólann í botn. Haustið kemur samt á endanum. Þangað til að ætla ég að njóta sumarsins í botn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.5.2007 | 18:24
Road trip
Nú bíður stjórnamálafræði á skrifborðinu mínu. Þessi bók skorar ekki hátt hjá mér, og myndi ég taka hundruð bóka fram yfir hana, vantaði mig eitthvað til að drepa tímann. En ég ákvað að taka Pollýönnu á þetta og gera gott úr þessu. Ég ætla að nýta næstu daga, fram að prófinu sem er á fimmtudag, til að að fræðast um stjórnmál og kynna mér vel flokkana sem eru í framboði, stefnur þeirra og hverjir sitja í efstu sætunum. Jú, með þessu slæ ég tvær flugur í einu höggi. Læri það sem þarf fyrir prófið og veit eitthvað í minn haus þegar ég skunda á kjörstað næsta laugardag og kýs í Alþingiskosningum í fyrsta sinn.
Held að flestir kannist við það að hafa slæma tilfinningu fyrir einhverju. Stundum tekst manni að hrista það af sér, sannfærast um að það verði allt í lagi. Sumir finna jafnvel fyrir slæmri tilfinningu áður en eitthvað slæmt gerist. Tilviljun? Einhver leiðinda kvíði er búinn að vera að pirra mig síðustu vikur. Ég reyni að sannfæra sjálfa mig um að þetta sé ekkert til að hafa áhyggjur af eða kvíða fyrir en það er einhver vond tilfinning sem að rígheldur sér í heilabúinu mínu.
Annars gengur lífið bara vel.
- How beautiful a day can be when touched by kindness
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.5.2007 | 17:28
Spiderman...
Spennandi bardagar milli karlmanns í bláum og rauðum búning og óvinar sem ekki vill vel. Ástin liggur í loftinu, en hefndin svíður í hjartanu. Góðar minningar vakna, yndislegur félagsskapur.
Hvað er ekki að gerast í þessum heimi? Lítilli þriggja ára stúlku var rænt úr íbúð á Portúgal þar sem hún var sofandi ásamt systkinum sínum. Fjölskyldan bara í vorfríi og búmm! Núna hefur hennar verið saknað í einn og hálfan sólarhring. Hver gerir svona lagað?
Fíkniefnin eru svo miklu nær manni en mann grunar. Þetta er allt í kringum mann. Leigubílstjóri laminn með felgujárni, fíkniefnaviðskipti á næsta bílaplani. Heimilisofbeldi og vanræksla blómstra í þögninni.
Ég var að keyra heim seint í nótt. Klukkan var þrjú. Dagurinn var byrjaður aftur, partí á FM957 að klárast. Veifaði lögreglubíl á gatnamótum, fékk vink til baka og hélt áfram að keyra í takt við tónlistina.....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 02:10
Maí.
Um daginn sat ég inni á bókasafni Flensborgarskóla og spjallaði við kunningja af náttúrufræðibraut. Hann efaðist eitthvað um gagnsemi félagsfræðabrautarinnar sem að ég lýk við um jólin, náttúrufræðibrautin byði upp á svo miklu fleiri möguleika í lífinu. Þá sagði ég að mér væri í raun sama, ég hefði fullt af möguleikum, möguleikum á því að gera það sem að ég VILDI gera..... Þetta líf getur verið svo óhugnalega stutt, afhverju ekki að gera það sem mann langar til að gera, í stað þess að hugsa alltaf um framtíðina og hvað henti henni langbest? Þá sagði hann; nú skil ég afhverju þú ert á félagsfræðibraut.
Önnin hjá mér núna var sannkallað letilíf. Fjórir áfangar eru ekki neitt. Ég naut þess í botn. Rosaleg breyting frá því sem ég hef verið að gera áður, en soldið leiðinlegt að horfa á vini sína vera að drukkna í skólanum. Núna þegar sumarið er komið, önninni að ljúka og ég sit og horfi til baka held ég að það sé alveg ljóst að ég valdi nákvæmlega réttu önnina til að slappa af. Eða var það ég sem valdi?
Um daginn var ég pínd til að synda hálfan kílómeter. Mér leið samt svo vel í hjartanu eftirá.
Hugsa að ég fari að gera meira af þessu. Maí.......
Næstu daga ætla ég að gera ýmislegt. Ég ætla að klára smá verkefni, læra fyrir stjörnufræðipróf sem er á föstudag, þvo þvott, spila smá TTD inná milli, flétta litlu systur, sýna væntumþykju....
Ég er með ýmis plön fyrir maímánuð, en ég klára seinna prófið 10 maí. Þetta verður ágætt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.4.2007 | 19:22
Gulur fífill
Í sumar verð ég sex flokka í Vindáshlíðinni góðu, eina viku í Kaldárseli með fjörkálfunum Arnóri og Benjamín og svo tvær vikur á Ævintýranámskeiðunum. Í ágúst fer ég svo í viku til Kaupmannahafnar með fjölskyldunni. Tek svo síðustu önnina mína næsta haust, útskrifast um jólin og hvað svo?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sólargeislinn
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar